Helgin

Hæ,

Helgin var alveg ágæt. Slatti af bjór drukkinn á föstudagskvöldið og þakka kærlega fyrir gott kvöld þar. Laugardagur fór í að hlusta á tónlist með vinkonu minni henni Dorte. Við drukkum alveg ágætis rauðvín frá syðri hluta Evrópu og áttum gott spjall um lífið og tilveruna.
Ég vann svo smá á laugardag og sunnudag í uppvaskinu á spítalanum. Ágætis vinnustaður satt að segja og virkilega fínir vinnufélagar.
Í kvöld skellti ég mér svo í bíó á myndina You, me and Dupree. Virkilega fín ræma og bara ágætis boðskapur þar í gangi og maður minntur enn og aftur á það að taka lífið ekki of alvarlega og varðveita "nessinn" í sjálfum sér. Allir leikarar flottir þarna og það verður nú að segjast að dóttir Goldie Hawn er svona með huggulegri eintökum á þessari jörð.

Í næstu viku mun ég skipta vikunni svona nokkuð bróðurlega á milli skóla og vinnu og bara lít björtum augum á komandi daga.

Ég lít í kringum mig á ástvini mína og því miður líður ekki öllum vel. Það er nú stundum þannig að við lifum öll með okkar komplexa og þurfum að horfa fram á veginn. Sumum er það ekki eins auðvelt og öðrum. Við setjum okkur öll markmið í lífinu, sum háleit og sum kannski ekki svo háleit í hugum annarra. Að fá innri ró er líklega sá lúxus sem við því miður leyfum okkur ekki að ná. Höldum jafnvel að við hreinlega getum það ekki. Það er alveg sama hvar við erum í lífinu það er hægt að fá innri ró, en það gerist bara ef við erum sátt við manneskjuna í speglinum.
Hamingjan í þessu vestræna þjóðfélagi er oft mæld í lágri fituprósentu og feitri innistæðu. Því miður er það bara veruleikaflótti. Vissulega óskandi að ná þessum markmiðum en það bara nær svo langt sem það nær.
Kannski er það fátækur námsmaður hér að tala til að réttlæta stöðu sína.

Hafið það gott og kíkið á manneskjuna í speglinum og gefið henni klapp á öxlina og segið "þú ert alveg ágæt(ur)"

kveðja og góða nótt,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Klapp klapp. ég er ágæt og þú líka.....
hilsen HG
Addý Guðjóns sagði…
Rakst inn á þessa annars fínu síðu hérna. Fín pæling með fituprósentuna og feitu summuna. Fólk ætti nú kannski að hugsa sinn gang. Hvers vegna ætli manni líði betur sem fátækum námsmanni hér í DK en heima í stressinu? Svo ég orði þetta eins og Heiða gella: "Ja, maður spyr sig!"
Hilsen úr Marmeladekvarteret,
Addý paddý

Vinsælar færslur